Í nýlegum dómi Landsréttar í máli 345/2024 þar sem Ólafur Kjartansson lögmaður á Lagastoð gætti hagsmuna kaupanda fasteignar, komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að seljandi fasteignar bæri ábyrgð á tjóni kaupandans vegna leka, raka og myglu. Í reifun á vefsíðu Landsréttar kemur fram:
„L og T höfðuðu mál gegn J til heimtu skaðabóta eða afsláttar vegna ýmissa galla sem þau töldu vera á fasteign sem þau keyptu af J. Í dómi Landsréttar var talið að J og T hefðu með matsgerð dómkvadds matsmanns sannað að þau hefðu orðið fyrir tjóni sökum leka, raka og myglu á tilgreindum stöðum í fasteigninni. Heildartjón J og T vegna galla í fasteigninni var að mati dómsins talið nema 10,02% af söluandvirði fasteignarinnar eða 7.069.257 krónum. Með vísan til dómframkvæmdar var ekki talið að ágallarnir hefðu rýrt verðmæti fasteignarinnar svo nokkru varðaði, sbr. 2. málslið 18. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, og því ekki um galla að ræða í skilningi ákvæðisins. Hins vegar þótti ástand glugga og myglumyndun í veggjum og í gólfi svefnherbergja við skoðun matsmanns gefa til kynna að langvarandi leki hefði valdið þeim skemmdum og talið að J hefði verið kunnugt um lekann við söluna. Var J því talinn hafa sýnt af sér saknæma háttsemi við sölu eignarinnar, sbr. 26. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, með því að upplýsta ekki um lekann og var honum gert að greiða J og T tjón þeirra vegna þessara atriða eða 3.668.211 krónur auk 91.205 króna vegna kostnaðar við úrbætur á útitröppum“
Dómurinn í heild er birtur hér á vefsíðu Landsréttar.