Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2025 var felldur úr gildi úrskurður kærunefndar útboðsmála í máli Kara Connect ehf. (KC) gegn embætti landlæknis o.fl. þar sem kveðið hafði verið á um skyldu embættisins til að bjóða út innkaup á hugbúnaði á heilbrigðissviði. Um var að ræða innkaup á þróun hugbúnaðarins Heklu heilbrigðisnets, gerð og þróun hugbúnaðarins Heilsuveru fyrir almenning til að sækja heilsutengdar upplýsingar í gegnum Heklu heilbrigðisnet og þróun fjarfundalausnar til notkunar á heilbrigðissviði. Með dóminum var jafnframt vísað frá héraðsdómi kröfu KC að því leyti sem hún laut að ógildingu á úrskurði nefndarinnar um nytjaleyfissamninga um Sögu sjúkraskrárkerfi. Þá var felld úr gildi stjórnvaldssekt sem kærunefndin lagði á embætti landlæknis sem og ákvörðun nefndarinnar um skyldu embættisins til að greiða málskostnað.
KC áfrýjaði dóminum til Landsréttar, en hefur nú fallið frá áfrýjuninni. Nokkrar tafir urðu á því að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur væri birtur opinberlega en hann hefur nú verið birtur á heimasíðu dómstólsins.
Dagmar Sigurðardóttir, lögmaður og einn eigenda LAGASTOÐAR, flutti málið fyrir hönd embættis landlæknis.
Bakgrunnsupplýsingar:
Upphaf málsins má rekja til ársins 2021 þegar KC kærði embætti landlæknis fyrir innkaup á hugbúnaði fyrir myndsímtalaþjónustu. Í kjölfarið bætti KC við kæruefnum vegna samninga embættis landlæknis um kaup á hugbúnaði tengdum Heilsuveru, Heklu heilbrigðisneti og Sögu sjúkraskrárkerfi.
Með úrskurði kærunefndar útboðsmála 22. febrúar 2022 í máli nr. 8/2021 var kröfum KC vísað frá nefndinni að því leyti sem þær vörðuðu nytjaleyfissamninga um Sögu sjúkraskrárkerfi. Aftur á móti var lagt fyrir embætti landlæknis að bjóða út þróun hugbúnaðarins Heklu heilbrigðisnets, gerð og þróun hugbúnaðar Heilsuveru fyrir almenning til að sækja heilsutengdar upplýsingar í gegnum Heklu heilbrigðisnet og þróun fjarfundalausnar til notkunar á heilbrigðissviði. Jafnframt var embætti landlæknis gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 9.000.000 krónur.
Hvort tveggja embætti landlæknis og KC höfðuðu mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna úrskurðar kærunefndarinnar.
Í dómi héraðsdóms er komist að þeirri niðurstöðu að vísa hafi átt kæru KC frá nefndinni þar sem hún hafi borist eftir að kærufrestur var liðinn. Jafnframt hafi fyrirtækinu verið óheimilt að bæta nýjum kæruefnum við kæruna. Í dóminum er sérstaklega fjallað um niðurstöðu nefndarinnar um hvort innkaup á fjarfundalausninni hafi náð viðmiðunarfjárhæð samkvæmt 23. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Segir að við mat á þessu hafi kærunefndin ekki mátt líta til fjárhæða vegna innkaupa á hugbúnaði tengdum Heklu, Heilsuveru og Sögu. Séu sterkar vísbendingar um að innkaup á fjarfundalausninni hafi verið undir viðmiðunarfjárhæð um útboðsskyldu. Hafi nefndinni borið að fjalla um þetta sérstaklega. Hafi málsmeðferð kærunefndarinnar verið slíkum annmörkum háð að óhjákvæmilegt sé að ógilda úrskurð nefndarinnar að því er varði innkaup á fjarfundalausninni og innkaup tengd Heklu og Heilsuveru.
Sem áður segir krafðist KC þess jafnframt að úrskurður kærunefndarinnar yrði ógiltur að því leyti sem þar var hafnað kröfum fyrirtækisins vegna Sögu sjúkraskrárkerfis. Krafa KC beindist annars vegar að viðbótum og þróun á Sögu sjúkraskrárkerfi og hins vegar að nytjaleyfissamningum um kerfið. Þeim þætti kröfunnar sem varðaði viðbætur og þróun var vísað frá héraðsdómi með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2023. Að undangenginni kæru KC staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu 3. júlí sama ár í máli nr. 168/2023 og hafnaði Hæstiréttur síðar beiðni fyrirtækisins um kæruleyfi, sbr. ákvörðun réttarins í máli nr. 96/2023. Þeim þætti kröfunnar sem varðaði nytjaleyfissamninga var síðan vísað frá með dómi héraðsdóms 2. apríl sl. Var sú niðurstaða byggð á því að kærunefnd útboðsmála hafi fjallað um kröfu KC vegna nytjaleyfissamninganna í úrskurði sínum 14. ágúst 2024 í máli nr. 15/2023. Þar hafi öllum kröfum KC verið hafnað. Í ljósi þessa taldi héraðsdómur að KC hefði ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um frávísun kærunefndarinnar í hinum eldri úrskurði.
Samandregið féllst héraðsdómur því á allar kröfur embættis landlæknis á meðan kröfu KC var vísað frá héraðsdómi.
– – –
Upphafleg kæra til kærunefndar útboðsmála 24. febrúar 2021 snerist um innkaup á fjarfundalausn fyrir heilbrigðiskerfið en óumdeilt er að þau innkaup voru undir viðmiðunarmörkum um útboðsskyldu. Í bréfi til nefndarinnar 27. apríl 2021 bætti Kara Connect ehf. við kæruefnum sem sneru að innkaupum vegna Sögu sjúkraskrárkerfis, Heklu heilbrigðisneti og Heilsuveru. Að mati dómsins fól viðbót við kæruna 27. apríl 2021 í sér „mikla eðlisbreytingu á málinu“ (sjá lið 180 í dóminum).
Dómurinn taldi að í ljósi lögskýringargagna mætti ráða að málatilbúnaður kæranda, sem lagður var fyrir kærunefnd útboðsmála með skriflegri kæru í öndverðu, markaði að meginstefnu til umfjöllunarefni nefndarinnar og að kærandi gæti að jafnaði ekki bætt síðar við kröfum vegna sjónarmiða og gagna frá kærða (sjá lið 181). Var það mat dómsins með hliðsjón af lögskýringargögnum og dómi Landsréttar í máli nr. 745/2021, að kærunefndinni hafi verið óheimilt að taka til meðferðar hina breyttu kröfugerð KC sem fól í sér nýtt kæruefni og hafði í för með sér verulegar eðlisbreytingar á málinu (sjá lið 185). Kærunefndinni hefði því átt að vísa viðbótarkröfum KC frá. Leiddi af þessari niðurstöðu að niðurstaða kærunefndarinnar yrði ekki lögð til grundvallar dómi í málinu (liður 186 í dóminum).
Dómurinn mat það svo að KC hafi 11. september 2020 búið yfir slíkum upplýsingum um þau innkaup sem fyrirtækið kærði 24. febrúar 2021 að KC hafi í það minnsta mátt vita um þau og þar með verið grandsamt um að embætti landlæknis ynni að gerð hugbúnaðarlausna á sviði fjarheilbrigðisþjónustu, m.a. í samstarfi við Origo ehf. sem KC taldi til útboðsskyldra vöru- og þjónustukaupa samkvæmt 23. gr. laga um opinber innkaup (liður 196 í dóminum). Dómurinn taldi með vísan til 106. gr. laga um opinber innkaup að frestur KC til að beina kæru til kærunefndar útboðsmála, varðandi samninga þá sem kæra hans til nefndarinnar varðaði, hafi verið liðinn 24. febrúar 2021. Kærunefnd útboðsmála hafi því borið að vísa kæru hans frá nefndinni (liður 198 í dóminum).
Dómurinn taldi að óumdeilt væri að viðmiðunarfjárhæð um útboðsskyldu hafi verið 15,5 m. kr. bæði þegar kæra var lögð fram og raunar enn er úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp. Á sama tíma hafi viðmiðunarfjárhæð um útboðsskyldu á EES-svæðinu verið 18.120.000 kr. Kærunefndinni hafi borið að taka afstöðu til þess í úrskurði sínum hver fjárhæð innkaupa á fjarfundalausn væri. Sterkar vísbendingar hafi verið um að hún hafi verið undir viðmiðunarmörkum um útboðsskyldu. Taldi dómurinn að engar forsendur hafi verið til að líta á hin sjálfstæðu innkaup Embættis landlæknis á fjarfundalausn frá Sensa ehf. sem hluta af viðskiptum milli hans og Origo hf. á annars konar hugbúnaðarþróun fyrir Sögu sjúkraskrárkerfi, Heilsuveru og Heklu heilbrigðisnet, sem hefðu átt sér stað á löngum tíma (liður 204 í dóminum). Að virtu öllu þessu taldi dómurinn að málsmeðferð kærunefndar útboðsmála hafi verið slíkum annmörkum háð að óhjákvæmilegt væri að ógilda úrskurð nefndarinnar í máli 8/2021 (liður 205 í dóminum). Var því fallist á aðalkröfu embættis landlæknis í aðalsök.
Í gagnsök KC var þess krafist, eins og áður sagði, að úrskurður kærunefndar útboðsmála nr. 8/2021 yrði ógiltur að því er varðar frávísun á kröfum fyrirtækisins er vörðuðu nytjaleyfissamninga um Sögu sjúkraskrárkerfi. Dómurinn vísaði til þess að KC kærði, eftir að úrskurður nr. 8/2021 féll, nytjaleyfissamninga um Sögu sjúkraskrárkerfi til kærunefndar útboðsmála í máli nefndarinnar nr. 15/2023. Nefndin tók þá efnislega afstöðu til kærunnar og hafnaði kröfum KC. Þar af leiðandi var það niðurstaða dómsins að KC hefði ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að dómurinn leysti úr því hvort efni væru til að úrskurður kærunefndarinnar nr. 8/2021 yrði ógiltur að þessu leyti. Þeirri kröfu því vísað frá dómi (liður 213 í dóminum). Með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 var málskostnaður milli aðila felldur niður. Þar sem Origo hf. og Sensa ehf. eru ekki bundin af lögum um opinber innkaup í rekstri sínum, taldi dómurinn rétt að embætti landlæknis og KC greiddu hvor um sig stefndu Origo hf. og Sensa ehf. málskostnað eins og tilgreint er í dómsorði.
Dómur héraðsdóms í máli nr. 3742/2022 þann 2. apríl 2025 hefur einnig þýðingu varðandi úrskurði kærunefndar útboðsmála í málum nr. 6/2023 og 15/2023 og jafnvel fleiri mál kærunefndar útboðsmála, að því leyti sem þar eru dregnar ályktanir af niðurstöðu kærunefndar útboðsmála í úrskurði nr. 8/2021.