21. mars 2024 – Kærunefnd útboðsmála staðfestir ábyrgð kaupanda á því að útboðslýsing sé rétt og nákvæm

Utanríkisráðuneytið óskaði nýlega eftir tilboðum í 140 skrifborð fyrir ráðuneytið, en í útboðslýsingu var áskilið að borðfætur væru rúnnaðir. Tilboði Hirzlunnar ehf., sem var lægstbjóðandi í útboðinu, var hafnað með vísan til þess að borðfætur þeirra skrifborða sem fyrirtækið bauð fram væru ekki rúnnaðir heldur ferkantaðir með rúnnuðum hornum. Fyrirtækið taldi þessa ákvörðun ráðuneytisins ekki í samræmi við útboðslýsingu og ákvað að bera málið undir kærunefnd útboðsmála.

Dýrkeypt ónákvæmni í útboðslýsingu

Kærunefnd útboðsmála taldi orðalag útboðslýsingarinnar ekki hafa borið það skýrlega með sér hvort óskað hafi verið eftir því að borðfætur væru súlulaga eða hvort heimilt væri að þeir væru ferkantaðir með rúnnuðum hornum. Í þessu sambandi benti kærunefndin á að ráðuneytið hafi skapað óþarfa vafa um inntak útboðskrafna að þessu leyti með því að taka ekki afdráttarlausa afstöðu til fyrirspurnar Hirzlunnar ehf. um þetta atriði.

Í úrskurði kærunefndarinnar er bent á að samkvæmt 49. gr. laga um opinber innkaup beri kaupandi í opinberum innkaupum ábyrgð á því að útboðslýsingar og gögn séu réttar og nákvæmar. Hafi örútboðslýsing utanríkisráðuneytisins ekki fullnægt kröfum laganna til efnis tæknilýsingar. Ráðuneytinu hafi því verið óheimilt að hafna tilboðum Hirzlunnar ehf. sem ógildum og hafði það bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart fyrirtækinu. Var ráðuneytinu jafnframt gert að greiða Hirzlunni ehf. 1.000.000 kr. í málskostnað.

Dagmar Sigurðardóttir, lögmaður og einn eigenda LAGASTOÐAR lögfræðiþjónustu ehf., gætti hagsmuna Hirzlunnar ehf. við meðferð málsins.

Dagmar sérhæfir sig í álitaefnum tengdum opinberum innkaupum en hún var um árabil sviðsstjóri lögfræðisviðs Ríkiskaupa. Þá heldur hún reglulega námskeið um opinber innkaup meðal annars á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands. Dagmar aðstoðar við gerð útboðsskilmála og val á innkaupaferlum og svarar fyrirspurnum viðskiptavina í tengslum við samningsgerð. Hún tekur jafnframt að sér samningu álitsgerða og hagsmunagæslu fyrir kærunefnd útboðsmála og dómstólum.