11. maí 2024 – Héraðsdómur viðurkennir ábyrgð Reykjavíkurborgar á tjóni sundlaugargestar.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí sl. var viðurkennd ábyrgð Reykjavíkurborgar á tjóni sem sundlaugargestur varð fyrir er hann rann til í hálku við Árbæjarlaug. Slysið var rakið til ísingar á laugarbakkanum sem talið var að mætti rekja til bilunar í snjóbræðslukerfi laugarinnar.

Á eigendum fasteigna sem opnar eru almenningi, líkt og sundlauga og líkamsræktarstöðva, hvílir rík skylda til að tryggja öryggi gesta. Í dómi héraðsdóms er bent á að um starfsemi sundlauga gildi strangar reglur um aðbúnað til að koma í veg fyrir óhöpp og að ríkar kröfur séu gerðar um að sérstakrar varúðar sé gætt um aðbúnað á slíkum stöðum.  Starfsmenn laugarinnar hafi vitað að snjóbræðslukerfi virkaði ekki og hafi brugðist við með því að bera salt á útisvæði laugarinnar. Aftur á móti hafi svör starfsmanna um tíðni söltunarinnar verið misvísandi og ekkert verið skráð um fyrirkomulag hennar. Hafi ekki verið sýnt fram á að sett hafi verið upp aðvörunarskilti sem hafi getað varað gesti við hættunni sem stafaði af aðstæðum umrætt sinn.

Sjá frétt mbl.is um málið.

Ólafur Kjartansson, lögmaður og einn eigenda LAGASTOÐAR, gætti hagsmuna tjónþola við meðferð málsins.