29. september 2023 – Kærunefnd útboðsmála viðurkennir skaðabótaskyldu Rarik ohf. gagnvart Heflun ehf.

Í tveimur úrskurðum kærunefndar útboðsmála 26. september sl. var fallist á skaðabótaskyldu Rarik ohf. gagnvart Heflun ehf. vegna útboða sem vörðuðu lagningu jarðstrengja. Fyrir hönd Heflunar ehf. kærðu Ólafur Kjartansson og Dagmar Sigurðardóttir, lögmenn hjá LAGASTOÐ, innkaupferlið.

Bakgrunnsupplýsingar

Þann 26. september sl. kvað kærunefnd útboðsmála upp tvo úrskurði vegna útboða Rarik ohf. á jarðstrengjalögnum fyrir árið 2023. Í úrskurði kærunefndarinnar í máli nr. 13/2023 fjallaði kærunefndin um kæru Heflunar ehf. á útboðum Rarik á lagningu jarðstrengja. Kæran var meðal annars reist á því að þótt fyrirtækið hefði verið samþykkt í forvali gæti það ekki tekið þátt í útboðunum vegna skilmála þeirra. Kærunefndin taldi að við útreikning á viðmiðunarfjárhæðum hefði átt að miða við samanlagt virði allra verkanna, sbr. 21. gr. reglugerðar nr. 340/2017, um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu, og að bjóða hefði átt út verkin á Evrópska efnahagssvæðinu. Taldi kærunefndin að Rarik hefði brotið gegn ákvæðum reglugerðarinnar með því að bjóða verkin ekki út í samræmi við fyrirmæli reglugerðarinnar. Var Rarik því talið skaðabótaskylt gagnvart kæranda og gert að greiða honum málskostnað.

Rarik ákvað að falla frá hinum kærðu innkaupum og hóf í kjölfarið nýtt innkaupaferli sem var auglýst á íslenska útboðsvefnum og á Evrópska efnahagssvæðinu. Kærandi taldi skilmála útboðanna líkt og áður útilokandi fyrir sig. Í úrskurði kærunefndarinnar í máli nr. 22/2023 féllst kærunefndin á að Rarik hefði á ný brotið gegn framangreindri reglugerð um innkaup veitustofnana, nú með því að virða ekki ákvæði um lágmarkstilboðsfresti. Var sjónarmiðum Rarik um að brýn nauðsyn réttlætti styttri tilboðsfresti hafnað. Var Rarik því talið skaðabótaskyldt gagnvart kæranda vegna þátttöku í tveimur innkaupaferlum og gert að greiða honum málskostnað.