6. júní 2025 – Skylda kaupanda til að tilkynna seljanda um ætlaða galla. Héraðsdómur hafnar því að einbýlishús hafi verið gallað.

Á undanförnum árum hefur fjölgað málum þar sem kaupandi og seljandi deila um hvort fasteign hafi verið gölluð. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, lögmaður og einn eigenda LAGASTOÐAR, gætti nýlega hagsmuna seljanda í máli þar sem kaupandi hélt því fram að einbýlishús hafi verið haldið göllum þar sem það hafi hvorki uppfyllt kröfur um gæði, búnað og annað sem leiði af lögum um fasteignakaup né hafi það verið afhent í umsömdu ástandi samkvæmt kaupsamningi.

Héraðsdómur hafnaði kröfum kaupandans, en í dóminum kemur meðal annars fram að kaupandi hafi ekki gert athugasemdir við ástand eignarinnar fram að þeim tíma sem inna átti af hendi lokagreiðslu og gefa út afsal. Hafi slíkar athugasemdir fyrst komið fram þegar veruleg vanskil voru orðin af hans hálfu á greiðslum samkvæmt kaupsamningi. Með hliðsjón af reynslu kaupandans og aðkomu hans að framkvæmdum á eigninni eftir afhendingu taldi héraðsdómur að hann hafi hlotið að vita af hinum ætluðu göllum. Hafi honum borið að halda uppi kröfu sinni og tilkynna seljanda um eðli og umfang hinna ætluðu galla innan sanngjarns frests. Var seljandinn því sýknaður af kröfu kaupandans.

Sjá nánar dóm Héraðsdóms Reykjavíkur.

Lögmenn LAGASTOÐAR hafa sérþekkingu á lagareglum um fasteignakaup, þar með talið málum vegna ætlaðra galla á fasteign, og taka að sér að gæta hagsmuna kaupenda eða seljenda.