24. september 2023 – Sambúðarsamningar.

Svein­björg Birna Svein­björns­dótt­ir lögmaður hjá LAGASTOÐ sér­hæf­ir sig í að gera sam­búðarsamn­inga. Í viðtali við vefmiðilinn mbl.is seg­ir hún mikla eft­ir­spurn eft­ir slík­um samn­ing­um. Sérstaklega ef fólk er að hefja aðra sam­búð eft­ir sam­búðarslit eða hjóna­skilnað:

„Reynsl­an hef­ur kennt okk­ur að marg­ir kjósa óvígða sam­búð í stað hjóna­bands. Á und­an­förn­um árum hef­ur þess vegna orðið um­tals­verð aukn­ing á sam­búðarslit­um þar sem ágrein­ing­ur er um skipt­ingu eigna. Sam­búð get­ur líka komið til síðar á lífs­leiðinni. Þannig kýs eft­ir­lif­andi maki sem er kom­inn í nýtt sam­band oft sam­búðarformið í stað þess að ganga aft­ur í hjóna­band. Við höf­um þess vegna lengi vitað af það væri þörf á sam­búðarsamn­ing­um, bæði við upp­haf sambúðar og sam­eig­in­leg eigna­kaup. 

Þörf­in er lík­lega skýr­ust þegar for­eldr­ar eða aðrir vel­unn­ar­ar ungs fólks leggja til fé til íbúðar­kaupa. Með hækk­andi fasteigna­verði og stífari kröf­um við gerð greiðslu­mats hef­ur það færst í auk­ana að for­eldr­ar leggi fram hluta eða allt eigið fé til kaup­anna. Þeir vilja þá tryggja að um­rædd­ir fjár­mun­ir annaðhvort til­heyri sínu barni eða það eigi rétt á endurgreiðslu. Þannig hafa sam­búðarsamn­ing­ar í ákveðnum til­vik­um teng­ingu við fjár­fram­lag frá for­eldr­um. For­eldr­ar vilja þess vegna oft „lána“ unga fólk­inu dómgreind eða skyn­semi og óska eft­ir að við ger­um sam­búðarsamn­ing til að koma í veg fyr­ir framtíðarágrein­ing,“ seg­ir Svein­björg.

Sveinbjörg ræddi jafnframt um sambúðarsamninga í Bítinu, morgunútvarpi Bylgjunnar.