Kærunefnd útboðsmála kvað nýverið upp úrskurð í tilefni af kæru Kara Connect ehf. á annars vegar innkaupum embættis landslæknis á vörum og þjónustu í tengslum við gerð fjarheilbrigðisgáttar og hins vegar samningum embættisins og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við Origo hf. og Senda hf. um Sögu sjúkraskrárkerfi, Heilsuveru og Heklu heilbrigðisnet. Með úrskurði nefndarinnar var öllum kröfum Kara Connect vísað frá nefndinni utan kröfu um að embætti landlæknis og Heilsugæslu höfðuborgarsvæðisins yrði gert að bjóða út nytjaleyfi að Sögu sjúkraskrárkerfi, en þeirra kröfu hafnaði kærunefndin.
Úrskurður kærunefndarinnar hefur nú verið birtur á vefsíðu nefndarinnar. Dagmar Sigurðardóttir, lögmaður og einn eigenda LAGASTOÐAR, gætti hagsmuna embættis landlæknis við meðferð málsins.
BAKGRUNNSUPPLÝSINGAR
Í útdrætti á málsatvikum og niðurstöðu í úrskurði kærunefndarinnar segir meðal annars svo:
„K kærði meint innkaup E á vörum og þjónustu í tengslum við gerð fjarheilbrigðisgáttar, og samninga E og H við O hf. og S ehf. um Sögu sjúkraskrárkerfi, Heilsuveru og Heklu heilbrigðisnet. Krafðist K þess að samningar vegna fjarheilbrigðislausnar yrðu lýstir óvirkir, aðilum yrði gert að sæta viðurlögum og einnig að slík lausn yrði boðin út. Þá krafðist K þess að samningar E og H um Sögu, Heilsuveru og Heklu yrðu einnig lýstir óvirkir, og að aðilum yrði gert að sæta viðurlögum og yrði einnig gert að bjóða út innkaup á sjálfstæðum viðbótarlausnum við þau kerfi.
Í niðurstöðu kærunefndar útboðsmála var kröfum vegna fjarheilbrigðisgáttar vísað frá nefndinni sem og kröfum vegna þróun framangreindra hugbúnaðarkerfa, þar sem áður hefði verið fjallað um þær í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 8/2021. Þá var kröfum sem sneru að sjálfstæðum viðbótum við Heklu og Heilsuveru vísað frá þar sem nefndin hefði þegar fjallað um slíkt í sama úrskurði. Eftir stóð því krafa um að leggja fyrir E að bjóða út sjálfstæðar viðbætur við Sögu og krafa um óvirkni samnings E við O hf. um nytjaleyfi að því kerfi.
Kærunefndin taldi að krafa K um að bjóða skuli út sjálfstæðar viðbætur við Sögu væri almenns eðlis í kæru og beindist ekki að neinum sérstökum viðbótum. Krafa K fullnægði þannig ekki áskilnaði 2. mgr. 106. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup og hefði K ekki gert reka að því að bæta úr því undir rekstri málsins. Var kröfu K þess efnis því vísað frá.
Að því er varðar kröfu um óvirkni samnings E og H um nytjaleyfi að Sögu benti kærunefndin á að fyrir lægi að E hefði enga slíka samninga gert. H greiddi aftur á móti O hf. fyrir nytjaleyfi, og taldi nefndin að um ótímabundið samningssamband væri að ræða sem hefði verið við lýði um margra ára skeið. Samningurinn hefði verið gerður mörgum árum áður en kæra málsins barst kærunefndinni. Væri því óhjákvæmilegt að vísa kröfu K um óvirkni frá nefndinni.
Með vísan til þessa og annars sem rakið var í úrskurði kærunefndarinnar var því öllum kröfum K vísað frá, öðrum en kröfu um að E og H yrði gert að bjóða út nytjaleyfi að Sögu, sem var hafnað.“