10. júlí 2023 – Haagsamningurinn. – Landsréttur snýr við fyrri úrskurði.

Í nýlegum úrskurði Landsréttar reyndi á beitingu íslenskra laga sem byggja á svonefndum Haagsamningi um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa. Úrskurðurinn er sérstakur fyrir þær sakir að Landsréttur hafði áður komist að gagnstæðri niðurstöðu í sama máli, en fyrri úrskurðurinn verið ómerktur með dómi Hæstaréttar.

Í málinu var deilt um hvort barn skyldi tekið úr umráðum móður með beinni aðfarargerð. Móðirin hafði komið með barnið hingað til lands í ársbyrjun 2022 en skömmu síðar ákveðið að snúa ekki aftur með barnið til heimalands föður. Við síðari meðferð málsins var aflað mats dómkvadds matsmanns sem taldi að afleiðingar þess ef barnið færi án móður til heimalands föður gætu orðið mjög alvarlegar og jafnvel haft óafturkræf áhrif á andlega aðlögun og líkamlega heilsu þess. Meðal annars með vísan til þessa taldi Landsréttur alvarlega hættu á því að afhending barnsins myndi skaða það andlega og líkamlega eða koma því á annan hátt í „óbærilega stöðu“ (e. intolerable sitation) í skilningi laga.

Guðbjarni Eggertsson, lögmaður hjá LAGASTOÐ lögfræðiþjónustu, gætti hagsmuna móður hvort tveggja fyrir Hæstarétti og síðari meðferð málsins fyrir Landsrétti.