Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir lögmaður hjá LAGASTOÐ sérhæfir sig í að gera sambúðarsamninga. Í viðtali við vefmiðilinn mbl.is segir hún mikla eftirspurn eftir slíkum samningum. Sérstaklega ef fólk er að hefja aðra sambúð eftir sambúðarslit eða hjónaskilnað:
„Reynslan hefur kennt okkur að margir kjósa óvígða sambúð í stað hjónabands. Á undanförnum árum hefur þess vegna orðið umtalsverð aukning á sambúðarslitum þar sem ágreiningur er um skiptingu eigna. Sambúð getur líka komið til síðar á lífsleiðinni. Þannig kýs eftirlifandi maki sem er kominn í nýtt samband oft sambúðarformið í stað þess að ganga aftur í hjónaband. Við höfum þess vegna lengi vitað af það væri þörf á sambúðarsamningum, bæði við upphaf sambúðar og sameiginleg eignakaup.
Þörfin er líklega skýrust þegar foreldrar eða aðrir velunnarar ungs fólks leggja til fé til íbúðarkaupa. Með hækkandi fasteignaverði og stífari kröfum við gerð greiðslumats hefur það færst í aukana að foreldrar leggi fram hluta eða allt eigið fé til kaupanna. Þeir vilja þá tryggja að umræddir fjármunir annaðhvort tilheyri sínu barni eða það eigi rétt á endurgreiðslu. Þannig hafa sambúðarsamningar í ákveðnum tilvikum tengingu við fjárframlag frá foreldrum. Foreldrar vilja þess vegna oft „lána“ unga fólkinu dómgreind eða skynsemi og óska eftir að við gerum sambúðarsamning til að koma í veg fyrir framtíðarágreining,“ segir Sveinbjörg.
Sveinbjörg ræddi jafnframt um sambúðarsamninga í Bítinu, morgunútvarpi Bylgjunnar.