Nú um mánaðarmótin tóku gildi ný lög nr. 110/2021 um félög til almannaheilla. Lögin gilda um félög sem stofnuð eru eða starfrækt til eflingar afmörkuðum málefnum til almannaheilla en er ekki komið á fót í ágóðaskyni fyrir félagsmenn. Í greinargerð með lögunum kemur fram að hér er ,,átt við svonefnd hugsjónafélög sem stofnuð eru til mannræktar eða styrktar á einhverju sviði og beinast að ákveðnum einstaklingum sem uppfylla ákveðin skilyrði eða málefni sem nánar er skilgreint í samþykktum félagsins. Málefnið verður að vera talið til einhverra þjóðþrifa, svo sem mannræktarfélög, styrktarfélög sjúklinga, björgunar- og hjálparfélög, neytendafélög og menningarfélög. Þannig yrði þetta félagaform valið ef þátttaka margra er æskileg.“
Það getur skipt máli fyrir félög að uppfylla kröfur laganna og fá skráningu í almannaheillafélagaskrá því að ríkið, sveitarfélög, opinberar stofnanir og lögaðilar sem eru í meirihlutaeigu hins opinbera geta gert það að skilyrði fyrir styrkjum, rekstrarsamningum og opinberum leyfum til félaga að þau séu skráð í almannaheillafélagaskrá. Við stofnun félags skal stofnsamningur þess liggja frammi ásamt drögum að samþykktum fyrir félagið. Rétt er fyrir bæði landssamtök og aðildarfélög þeirra að kanna vel hvort ástæða er fyrir þau að vera skráð í almannaheillafélagaskrá með tilheyrandi réttindum og skyldum.
Skráning félaga í almannaheillafélagaskrá er valkvæð og er ætluð félögum þar sem stærð, umfang eða eðli starfseminnar felur í sér þær skyldur og réttindi sem í lögunum er kveðið á um. Í lögunum er fjallað um samþykktir félaga, félagsfundi, aðalfundi og aðalfundarboð, stjórn félags, ritun firma, vanhæfi, bókhald, ársreikninga félags og endurskoðun eða yfirferð þeirra, slit félags og fleira sem skiptir máli í skipulagi slíkra félaga. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna segir m.a.:
,,Þegar um er að ræða landssamtök þar sem félagsaðilar eru félög sem teljast almannaheillafélög nægir að landssamtökin séu skráð í almannaheillafélagaskrá samkvæmt lögunum. Aðildarfélögum landssamtakanna er þó einnig heimilt að óska eftir skráningu í almannaheillafélagaskrá og njóta þau þá réttinda og bera skyldur samkvæmt lögunum. Sem dæmi um slík landssamtök er Slysavarnafélagið Landsbjörg sem eru landssamtök björgunarsveita, slysavarna- og kvennadeilda og unglingadeilda á Íslandi. Gæta verður þó að því að hyggist aðildarfélög slíkra landssamtaka sækja um styrki geta aðilar skv. 2. gr. gert þá kröfu að félögin séu skráð í almannaheillafélagaskrá eða að þau fái styrk greiddan í gegnum landssamtökin. Lögin eru takmörkuð við félög sem ekki eru stofnuð til fjárhagslegs ábata fyrir félagsmenn sjálfa heldur eru stofnuð til þess að efla og styrkja skýrt afmörkuð málefni á þeim sviðum sem um er getið hér að framan. Stéttarfélög falla t.d. utan við þessi lög en um þau gilda lög um stéttarfélög og vinnudeilur. Tilgangur félags má ekki brjóta í bága við lög og allsherjarreglu, þ.e. ekki vera til eflingar og styrktar ólögmætum málefnum.“
Dagmar Sigurðardóttir, lögmaður og einn eigenda LAGASTOÐAR lögfræðiþjónustu, veitir ráðgjöf varðandi kröfur til stofnun félags til almannaheilla og skráningu í almannaheillafélagaskrá og aðstoðar við gerð stofnsamnings og stofnsamþykkta.
Vinsamlegast beinið fyrirspurnum til dagmar [hjá] lagastod.is