Með dómi Landsréttar 3. maí sl. var staðfest niðurstaða Samkeppniseftirlitsins um að ógilda samruna Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf. og Íslenskrar myndgreiningar ehf. Fyrirtækin höfðu kært ákvörðunina til áfrýjunarnefndar samkeppnismála þar sem niðurstaðan var staðfest. Starfsemi samrunaaðila felst í því að veita læknisfræðilega myndgreiningarþjónustu, en undir hana falla meðal annars tölvusneiðmyndarannsóknir, röntgenrannsóknir, ómun, segulómun og skyggnirannsóknir. Með samrunanum hefði keppinautum á markaði fækkað úr þremur í tvo og samanlögð markaðshlutdeild samrunaaðila orðið á bilinu 80-100% eftir því um hvaða þjónustuþætti er að ræða.
Gizur Bergsteinsson, lögmaður og einn eigenda LAGASTOÐAR, gætti hagsmuna Samkeppniseftirlitsins við meðferð málsins fyrir Landsrétti.