Gizur Bergsteinsson, lögmaður og einn eigenda LAGASTOÐAR lögfræðiþjónustu ehf., hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri lögmannsstofunnar. Gizur lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands 1998 og LL.M. gráðu í félaga- og viðskiptarétti frá University College London 2004. Á undanförnum árum hefur hann einkum veitt ríkisstofnunum, sveitarfélögum og fyrirtækjum ráðgjöf auk þess sem hann hefur tekið að sér að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna í ágreiningsmálum fyrir úrskurðarnefndum og dómstólum. Gizur gekk í eigendahóp LAGASTOÐAR 2010.
„Undanfarin ár hafa einkennst af miklum vexti hjá LAGASTOÐ. Eftir að við hófum samstarf við alþjóðlegu lögmannsstofuna Andersen Global hefur erlendum viðskiptavinum fjölgað, en þeir leita meðal annars eftir ráðgjöf í tengslum við íslenskt skattaumhverfi og lög og reglur á ýmsum sviðum atvinnulífsins. Skipulögð markaðssetning á þeirri sérþekkingu sem lögmenn okkar búa yfir hefur jafnframt skilað sér í fleiri innlendum viðskiptavinum. Samhliða þessu hefur eigendum lögmannsstofunnar fjölgað og á næstu mánuðum ráðgerum við að ráða til okkar fleiri lögmenn og löglærða starfsmenn. Markmið okkar er ávallt að nýta þá þekkingu og reynslu sem lögmenn okkar búa yfir til að bjóða viðskiptavinum okkar framúrskarandi lögmannsþjónustu.“
Gizur er kvæntur Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur lögmanni en þau eiga samanlagt sjö börn.
LAGASTOÐ lögfræðiþjónusta ehf. er í dag í eigu 11 lögmanna.